Innlent

Kárahnjúkar og Írak á Alþingi

Alþingi kemur saman að nýju í dag eftir jólaleyfi og hefst þingfundur klukkan þrjú með óundirbúnum fyrirspurnum til ráðherra og eru formenn þingflokkanna sammála um að Íraksmálið muni að öllum líkindum koma upp í umræðunni. Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, segir að sviptingar í utanríkismálum og vinnumarkaðsmál við Kárahnjúka verði líklega meðal þeirra mála sem upp komi á Alþingi í dag. Hjálmar Árnason, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, og Einar K. Guðfinnsson, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, segjast aðspurðir allir eiga von á því að fjallað verði um Íraksmálið í ljósi þess sem fram hefur komið í fjölmiðlum að undanförnu. Steingrímur J. Sigfússon segist eiga von á líflegum tímum framundan á Alþingi. "Þetta verður að öllum líkindum líflegra þing en maður gæti átt von á í ljósi þess að það er á miðju kjörtímabili. Það ræðst auðvitað af því hvaða mál koma frá ríkisstjórninni en vissulega eru mörg stór mál í umræðunni. Það er ákveðinn óróleiki til staðar og hnökrar í stjórnarsamstarfinu, enda finna allir að það stendur ekki á mjög traustum fótum. Líkurnar á óvæntum tíðindum eru til staðar og skapa vissa spennu," segir Steingrímur. Þá er búist við því að þingflokkarnir ræði sérstaklega á fundum sínum í dag hvort brotið hafi verið gegn lögum um meðferð trúnaðarupplýsinga í utanríkismálanefnd í kjölfar umfjöllunar Fréttablaðsins um efni funda nefndarinnar í febrúar og mars 2003. Einar K. Guðfinnsson segir augljóst mál að það verði rætt enda hafi utanríkismálanefnd verið kölluð saman til fundar síðar í vikunni til að fjalla um meðferð trúnaðarupplýsinga.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×