Söluferli Símans ófrágengið
Enn á eftir að afgreiða nokkur stór atriði varðandi söluferli Símans, að sögn Davíðs. Hann vildi ekki láta uppi hver þau atrið væru en sagði að þau væru samanhangandi. Spurður hvort stjórnarflokkarnir væru sammála um framvindu málsins svaraði hann: "Stjórnarflokkarnir eru sammála um það að þessi atriði séu atriði sem verði að liggja á borðinu áður en til sölunnar kemur." Meðal þess sem taka þarf ákvörðun um er hvort selja eigi allt fyrirtækið í einu, og ef ekki, hversu stór hluti fyrirtækisins verði seldur í fyrstu umferð. Einnig þurfa stjórnarflokkarnir að komast að niðurstöðu um það hversu stór hluti verði seldur til kjölfestufjárfesta og hvort bjóða eigi stofnanafjárfestum hlut eða hvort þeir eigi að kaupa á almennum markaði. Að sögn Davíðs er ráðherranefndin, sem auk Davíðs og Halldórs er skipuð Geir H. Haarde fjármálaráðherra og Valgerði Sverrisdóttur iðnaðar- og viðskiptaráðherra, enn að fara yfir málið. "Einkavæðingarnefndin gengur ekki lengra en hún hefur gengið fyrr en hún veit hvernig þeir sem bera hina pólitísku ábyrgð vilja að málið liggi við," sagði Davíð. "Við viljum klára málið sem fyrst því til þess að salan geti farið fram í júní eða júlí þarf þetta að liggja fyrir. Ég á von á því að það verði á allra næstu dögum, án þess að ég vilji dagsetja það. Vonandi í þessari viku," sagði Davíð.