Innlent

Nánast öll þjóðin á móti

Guðmundur Árni Stefánsson, þingmaður Samfylkingarinnar, segir ekki koma á óvart að nánast öll þjóðin sé á móti því að Íslendingar séu á lista hinna staðföstu þjóða samkvæmt nýrri Gallup-könnun. Sólveig Pétursdóttir, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, segir listann ekki skipta máli í dag þar sem hann hafi ekki haft þjóðarréttarlegar skuldbindingar í för með sér. Könnunin er birt í þjóðarpúlsi Gallups en hún var gerð í lok nýliðins árs. Úrtakið var rúmlega tólf hundruð manns og var svarhlutfall 62%. Spurt var: „Á Ísland að vera á lista með þeim þjóðum, sem styðja hernaðaraðgerðir Bandaríkjamanna og Breta í Írak, eða á Ísland ekki að vera á listanum. 84% þeirra sem svöruðu töldu að Íslendingar ættu ekki að vera á listanum, 14% sögðust vilja að Ísland væri á listanum og 2% töldu það ekki skipta máli. Samkvæmt könnuninni voru þrír af hverjum fjórum körlum andvígir stuðningi Íslands við innrásina í Írak og 93% kvenna voru sömu skoðunar. Sólveig Pétursdóttir, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, segir lista hinna staðföstu þjóða ekki skipta máli í dag þar sem hann hafi ekki haft þjóðarréttarlegar skuldbindingar í för með sér, nema kannski siðferðilega hvað varðar stuðning við uppbygginguna í Írak. Hún segir stríð alltaf neyðarbrauð og telur að fréttaflutningur af ástandinu í Írak hafi þarna einhver áhrif, sem og ábyrgðarlaus málflutningu stjórnarandstöðunnar sem Sólveig segir hafa verið með ólíkindum í vetur. Spurð hvort ekki megi túlka niðurstöðuna sem svo að íslenska þjóðin hafi eindregið verið á móti því að vera á listanum segir Sólveig að ákvörðunin um að vera á listanum hafi verið tekin með hliðsjón af ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og því í samræmi við utanríkisstefnu Íslans að standa með sínum bandamönnum. Guðmundur Árni Stefánsson, þingmaður Samfylkingarinnar sem sæti á í utanríkismálanefnd þingsins, segir niðurstöðu könnunarinnar ekki koma á óvart. Hann segir þetta fullkomlega í samræmi við þá tilfinningu sem hann hafi haft varðandi afstöðu fólks til þessarar undarlegu ákvörðunar tveggja manna á sínum tíma.   



Fleiri fréttir

Sjá meira


×