Innlent

Tveir ráðherrar bætast í hópinn

Ekki er víst að breytingar á eftirlaunalögum sem heimila fyrrverandi ráðherrum og alþingismönnum að þiggja eftirlaun þótt þeir séu í hálaunastöðum annars staðar, verði afturvirkar. Tveir nýir ráðherrar hafa bæst í hópinn eftir að umræðan komst í hámæli. Sérfræðingar stjórnvalda og Alþingis eru þegar lagstir yfir ýmis tæknileg atriði. Til greina kemur að forsætisráðherra skipi vinnuhóp í framhaldi af því ef þörf krefur. Til að mynda er óvíst og næsta ólíklegt að hægt verði að taka þennan rétt af mönnum sem nú þegar þiggja þessar greiðslur samkvæmt eftirlaunalögunum ásamt því að vera í fullu starfi. Sjö ráðherrar þáðu slíkar greiðslur í fyrra jafnhliða fullu starfi hjá hinu opinbera og fengu greiddar tæpar 17 milljónir samtals í eftirlaun auk annarra launa. Fimm fyrrverandi alþingismenn sem starfa hjá hinu opinbera þáðu í fyrra lífeyrisgreiðslur vegna fyrri starfa á Alþingi. Þrátt fyrir neikvæða umræðu í samfélaginu um greiðslurnar undanfarnar vikur hefur enginn fyrrverandi ráðherra hætt að taka við greiðslunum. Tveir nýir ráðherrar hafa hins vegar bæst í hópinn. Engar upplýsingar liggja á lausu um þá fyrrverandi ráðherra eða alþingismenn sem þiggja þessar greiðslur jafnhliða störfum sem eru ekki fyrir hið opinbera heldur á almennum markaði. Fjöldi þeirra fyrrverandi ráðherra og alþingismanna gæti því verið miklu meiri og reikningur ríkisins því miklu hærri.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×