Innlent

Markús hlýtur að hugsa sinn gang

Formaður Blaðamannafélags Íslands, Róbert Marshall, telur að Markús Örn Antonsson, útvarpsstjóri Ríkisútvarpsins, hljóti að hugsa sinn gang nú þegar Auðun Georg Ólafsson hafi ákveðið að taka ekki við starfi fréttastjóra útvarpsfrétta. Markús hafi í þrígang fengið vantraustsyfirlýsingu frá starfsmönnum sínum. Nær allir hafi þeir skrifað undir þá síðustu. Róbert telur fréttamann fréttastofu útvarps ekki hafa farið offari í viðtali sínu við Auðun Georg í hádegisfréttum í gær: "Auðvitað er ég hryggur yfir því hve langt þetta mál var látið ganga af yfirstjórnendum fyrirtækisins. Þeir virðast ekki bera hag þess fyrir brjósti." Róbert segir þá fréttamenn sem hafi sótt um starfið og síðar tjáð sig um ráðningu Auðuns Georgs ekki vanhæfa í starfið nú: "Það er lýðræðislegur réttur hvers manns að tjá sig um svona lagað. Þetta er opinber staða sem við eigum öll og það er enginn undanskilinn í þeirri umræðu." Blaðamannafélagið lýsti fullum stuðningi við baráttu og aðgerðir fréttamanna á fréttastofu útvarps í ályktun sem samþykkt var á stjórnarfundi í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×