Sport

Leikið gegn Þjóðverjum í dag

Íslendingar mæta Þjóðverjum í dag á heimsmeistaramótinu í handknattleik leikmanna 21 árs og yngri. Íslenska liðið tapaði með eins marks mun fyrir Spánverjum í gær. Eyjamaðurinn Kári Kristjánsson, sem leikur með Haukum á næstu leiktíð, var markahæstur í íslenska liðinu, skoraði 11 mörk og var valinn maður leiksins. Þjóðverjar, mótherjar Íslendinga í dag, hafa unnið alla 3 leikina og hafa forystu í B-riðli. Spánverjar eru einnig með 6 stig en hafa leikið einum leik meira. Íslendingar verða að vinna Þjóðverja í dag til þess að taka með sér stig í milliriðilinn. Takist það verða Þjóðverjar, Íslendingar og Spánverjar með 2 stig. Ef Þjóðverjar vinna þá fer íslenska liðið án stiga í milliriðilinn, Spánverjar verða með 2 stig og Þjóðverjar 4. Í A-riðli, þaðan sem mótherjar í milliriðlinum koma, eru Danir og Egyptar með 6 stig. Danir hafa unnið alla 3 leiki sína og mæta Svíum í síðasta leiknum í dag. Svíar eru með 2 stig eftir 3 leiki en eini sigurleikur þeirra er gegn Frökkum sem eru án stiga í keppninni. Danir og Eyptar eru öruggir áfram í milliriðil en hin liðin þrjú í riðlinum, Kóreumenn, Svíar og Frakkar, berjast um þriðja sætið í riðlinum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×