Fótbolti

Láns­mark­vörðurinn frá Liver­pool veðjaði við Vinícius og vann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Giorgi Mamardashvili ræðir við Real Madrid stjörnuna Vinicius Junior áður en Brasilíumaðurinn tók vítið. Mamardashvili varði síðan vítið.
Giorgi Mamardashvili ræðir við Real Madrid stjörnuna Vinicius Junior áður en Brasilíumaðurinn tók vítið. Mamardashvili varði síðan vítið. Getty/Alberto Gardi

Georgíski markvörðurinn Giorgi Mamardashvili var í aðalhlutverki þegar Valencia vann mjög óvæntan sigur á Real Madrid á Santiago Bernabeu í gær. Leikurinn var gríðarlega mikilvægur fyrir heimamenn í toppbaráttu spænsku deildarinnar.

Liverpool er búið að kaupa Mamardashvili en hann er í láni hjá Valencia á þessu tímabili. Hann sýndi það í gærkvöldi af hverju enska toppliðið vildi fá hann.

Mamardashvili hélt Valencia inn í leiknum með því að verja vítaspyrnu frá Vinícius Júnior eftir þrettán mínútna leik. Tveimur mínútum síðar komst Valencia síðan í 1-0.

Vinícius jafnaði metin snemma í seinni hálfleik en þrátt fyrir stórsókn þá tókst Real mönnum ekki að skora aftur hjá Mamardashvili og það var síðan Valencia sem stal sigrinum með sigurmarki í uppbótatíma.

Mamardashvili sagði síðan frá því eftir leik að hann hefði veðjað við Vinícius og unnið það veðmál.

„Ég átti samtal við Vinicius fyrir vítið og græddi síðan fimmtíu evrur,“ sagði Giorgi Mamardashvili við blaðamenn eftir leik. ESPN segir frá.

„Ég spurði hann hvort hann vildi setja fimmtíu evrur undir í vítinu. Hann sagði já og ég vann,“ sagði Mamardashvili.

„Hann ætti að borga mér en hann hefur ekki enn gert það,“ sagði Mamardashvili.

Mamardashvili átti stórleik í markinu og varði hvað eftir annað frá stórstjörnum Real Madrid. Hann varði alls átta skot í leiknum en þrátt fyrir eitt mark þá var xG, áætluð mörk 3,47 hjá Real.

Úrslitin voru mikið áfall fyrir Real Madrid í baráttunni um spænska titilinn við Barcelona.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×