Erlent

Farfuglar smitleið fuglaflensu

Rússneskir farfuglar frá Síberíu þar sem fuglaflensa geisar munu verða á vegi íslenskra farfugla í vetur. Allar líkur eru á að flensan berist í kjölfarið hingað til lands í vor. Í Novosibirsk í Rússlandi var unnið í því í dag að því að drepa fiðurfé í hundruðatali til að reyna að hefta útbreiðslu fuglaflensu sem valdið hefur uppnámi þar undanfarnar vikur. Flensan greindist fyrst á bóndabæ í Síberíu um miðjan júlí en síðan hefur hún breiðst hratt út. Hundrað og tuttugu þúsund fuglar hafi verið drepnir en allt kemur fyrir ekki því H5N1-stofn fuglaflensu, sá sem reynist mannfólki banvænn, finnst sífellt víðar. Rússar vilja nú alþjóðlegt átak til að berjast gegn flensunni. Það eru farfuglar sem koma frá Kína og Suðaustur-Asíu sem bera flensuna á sumarstöðvar sínar í Síberíu. Þaðan berst hún með fuglum til Miðausturlanda, sunnanverðrar Afríku og Evrópu. Níu milljónir vatna- og vaðfugla fara frá Síberíu til Evrópu á hverju ári og eiga þeir sér vetrarheimili á meginlandinu og Bretlandi - eins og fjöldi farfugla sem á sér sumarstöðvar hér á landi. Yfirvöld í Hollandi hafa þegar bannað útigöngu hænsna og í Þýskalandi stefnir í það sama. Bresk yfirvöld segja að þar í landi verði viðbrögðin svipuð á næstunni. Því má bæta við þetta að aldarfjórðungur er liðinn frá því að rannsóknir voru gerðar á flensu í fuglum hér á landi. Engar upplýsingar eru því til um hvort nýjustu stofna fuglaflensu sé að finna hér á landi. Sérfræðingar segja einu viðbrögðin við faraldri hér að drepa farfugla, eins og gert hefur verið annars staðar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×