Innlent

Góður dagur fyrir íslensku þjóðina

"Þetta er góður dagur fyrir alla íslensku þjóðina og sérstaklega þá sem starfa innan Landhelgisgæslunar," sagði Georg Lárusson, forstjóri Landshelgisgæslunnar, en í gær tilkynnti Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra, formlega um þriggja milljarða króna fjárstyrk til handa Gæslunni. Peningana skal nota til að fjárfesta í einu nútímalega varðskipi sem á að vera nógu stórt og öflugt til að geta komið til aðstoðar þeim stóru fleyum sem hingað sigla í vaxandi mæli. Til þess eru eyrnamerktir tveir milljarðar en einn milljarð skal nota til kaupa á fjölnota flugvél en eina flugvél embættisins missir flugleyfi sitt í lok næsta árs vegna aldurs. Á sama tíma og þetta var tilkynnt voru blaðamönnum kynntar breytingar sem gerðar hafa verið á Ægi, einu af skipum Gæslunnar, en það er nýkomið frá Póllandi þar sem yfirbygging og margt annað var endurnýjað og betrumbætt. Aðspurður um hvernig þrír milljarðar dygðu þegar fyrirséð er að kaup á hugsanlegu skipi og flugvél muni kosta meira en þrjá milljarða sagði Björn Bjarnason að hægt væri að skoða aðra möguleika eins og að leigu í stað kaupa.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×