Sport

Enn sá Beckham rautt

David Beckham gekk bölvandi og ragnandi af velli í gær
David Beckham gekk bölvandi og ragnandi af velli í gær NordicPhotos/GettyImages

David Beckham fékk að líta rauða spjaldið í gær þegar lið hans Real Madrid vann nauman sigur á spútnikliði Getafe 1-0. Beckham var rekinn af velli fyrir fólskulegt brot á einum leikmanna Getafe, en gæti átt yfir höfði sér frekari refsingu fyrir hegðun sína eftir að honum var vikið af velli.

Beckham brást fjúkandi vondur við þegar honum var sýnt rauða spjaldið og eftir að hann fékkst loks til að fara af velli, hnakkreifst hann við Bernd Schuster, þjálfara Getafe, og sendi honum tóninn.

Einhverjum þótti þessi framkoma fyrirliða enska landsliðsins nokkuð einkennileg og leiddu jafnvel líkur að því að hann væri að næla sér viljandi í leikbann til að hvíla á sér bakið, en hann hefur verið aumur í bakinu í nokkurn tíma.

Þetta var þriðja rauða spjald Beckham á tímabilinu og Valderley Luxemburgo þjálfari Real var ekki kátur með háttarlag Beckham. "Þetta var algjör óþarfi hjá honum og mér finnst að hann hefði átt að stilla sig. Ég er hinsvegar alveg ósammála því að hann hafi gert þetta viljandi," sagði Luxemburgo, sem blöð á Spáni segja að sé orðinn ansi valtur í sessi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×