Innlent

Einkaaðilar byggi samgöngumiðstöð

Samgönguráðherra vonast til að ákvörðun um að reisa nýja samgöngumiðstöð á Reykjavíkurflugvelli verði tekin innan fárra mánaða. Einakaðilar myndu byggja hana og hún bæði þjóna flugumferð og rútum. Sturla Böðvarsson samgönguráðherra kynnti reyndar hugmyndir þessa efnis skömmu fyrir kosningar sem Reykjavíkurborg efndi til um framtíð Reykjavíkurflugvallar árið 2001. Þar var gert ráð fyrir að samgöngumiðstöð yrði reist við Loftleiðahótelið. Hún yrði ekki aðeins flugstöð heldur miðstöð almenningssamgangna sem þjónaði einnig rútum og strætisvögnum. Sturla segir að unnið hafi verið að verkefninu í nokkurn tíma og vonandi fari að sjá fyrir endann á þeirri vinnu. Allir þekki þær aðstæður sem séu hér algerlega óviðunandi, annars vegar við Reykjavíkurflugvöll og hins vegar við Umferðarmiðstöðina. Því sé afar brýnt að málið nái fram að ganga. Ráðherrann hefur unnið málið í samstarfi við Reykjavíkurborg. Stefnt er að því að landrými flugvallarins verði minnkað, ein flugbraut af þremur verði lögð af, sú minnsta, suðvestur-norðaustur-brautin, og þannig gefið svigrúm til annarrar starfsemi. Sturla segir að samkomulag milli borgaryfirvalda og samgönguyfirvalda verði að vera gott í málinu en hann eigi ekki von á öðru en að það takist. Ráðherrann vonast til unnt verði að hefja byggingu samgöngumiðstöðvar sem allra fyrst. Hann voni svo sannarlega að ekki líði margir mánuðir þangað til ákvörðun um það verði tekin. Aðspurður hvernig verkið verði fjármagnað segir Sturla að hann voni að einkaaðilar sjái um framkvæmdina og fjárfestar líti á það sem góðan kost að byggja upp húsnæði og leigja síðan út.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×