Erlent

Kennedy leitaði lausnar

Nýbirt skjöl sýna að John F. Kennedy, forseti Bandaríkjanna, reyndi að finna diplómatíska lausn á Víetnamstríðinu með leynilegum samningaviðræðum við Rússa og Norður-Víetnama. Mikið hefur verið rætt og ritað um hver hefði orðið framvinda stríðsins í Víetnam ef John F. Kennedy hefði ekki verið myrtur í Dallas í nóvember árið 1963. Aðdáendur Kennedys hafa haldið því fram að hann hefði fundið pólitíska lausn eða jafnvel flutt bandaríska hermenn einhliða frá Víetnam. Þeir segja að þótt ekki væri annað hafi Kennedy mjög vantreyst hershöfðingjum eftir hina hraksmánarlegu innrás á Svínaflóa á Kúbu árið 1961. Nýfundin skjöl sýna að Kennedy reyndi að finna diplómatískar leiðir til þess að binda enda á átökin, löngu áður en bandarískar hersveitir voru sendar til Víetnams. Þetta var reynt með milligöngu Indverja og Pólverja. Skjölin benda til þess að Rússar hafi verið fúsir til þess reyna að kæla niður ólguna í Asíu en Norður-Víetnamar hafi verið tregir í taumi. Umrædd skjöl eru úr skjalasafni Averells Harrimans, sem á þessum tíma var aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna, og úr skjalasafni pólsku kommúnistastjórnarinnar sem var við völd á þessum árum. Í þessum skjölum kemur einnig fram að haukarnir í Washington voru þessu mjög andvígir, ekki síst Robert McNamara varnarmálaráðherra. Þessar þreifingar voru fyrri hluta árs 1962, rúmu ári áður en Kennedy var myrtur. Auðvitað veit enginn hvað hefði gerst ef Kennedy hefði lifað og setið annað kjörtímabil. Bróðir hans, Edward Kennedy, er þó ekki í vafa. Hann sagði um þessi nýju skjöl að þetta væri enn ein vísbendingin um að Jack(/...John?) var tregur til að láta undan þrýstingi um að senda hersveitir til Víetnam. Það væri erfitt að trúa því að hann hefði leyft þessum friðarumleitunum sínum að þróast út í þá hrikalegu herför sem stríðið í Víetnam var.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×