Sport

Þjálfari Afríku í 2 mánaða bann

Mostafa Marinó Anbari, þjálfari 3. deildarliðs Afríku á Íslandsmótinu í knattspyrnu hefur verið úrskurðaður í 2 mánaða leikbann af KSÍ. Þá var félagið ennfremur sektað um 12.000 krónur fyrir að nota leikmann sem ekki var kominn með leikheimild með félaginu í leik í VISA bikarnum 20. maí sl. Eftir umræddan leik Augnabliks og Afríku kom í ljós að Afríka skráði Abdel Hamid Oulad Idriss á leikskýrslu þrátt fyrir að hann tæki ekki þátt í leiknum. Annar leikmaður, Dejan Bilic lék hins vegar leikinn þó hann væri ekki á leikskýrslu en hann var á þeim tíma ekki kominn með leikheimild með Afríku. KSÍ refsar því þjálfaranum, Marinó Anbari og hefur hann byrjað að taka út tveggja mánaða leikbann sem varir frá 20. júní til og með 19. ágúst. Afríka leikur í C-riðli 3. deildar þar sem liðið er í sjötta og næsta neðsta sæti. Liðið hefur vakið mikla athygli á landsvísu en von er á kvikmynd um liðið sem sýnd verður á kvikmyndahátíðum víðs vegar um heiminn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×