Erlent

Kennsl borin á hryðjuverkamenn

Einn mannanna sem grunaðir eru um að hafa átt þátt í sprengjuárásunum í London í síðustu viku var stuðningsfulltrúi í grunnskóla. Hann var vel liðinn bæði meðal kennara og foreldra og lagði sig allan fram við að gera vel við börnin. Foreldrar eru efins um að lögreglan gruni rétta manninn en lögreglan segist hafa borið kennsl á alla hryðjuverkamennina. Lögreglan í Bretlandi leitar nú tveggja manna, sem kallaðir eru höfuðpaurinn og efnafræðingurinn, í tengslum við sprengjuárásirnar í Lundúnum en tala látinna er nú komin í fimmtíu og þrjá. Talið er að báðir mennirnir hafi flúið land löngu áður en árásirnar voru gerðar en lögreglan segir alls fimm menn hafa komið beint að sprengingunum og útilokar ekki að þeir hafi tengst al-Qaida. Ásamt höfuðpaurnum, efnafraæðingnum og 19 og 22 ára mönnunum frá Leeds og er talið að þrítugi maðurinn frá Dewsbury séu aðal skipuleggjendur árásarinnar. Sá maður var áður stuðningsfulltrúi í grunnskóla, afar vel liðinn, duglegur og metnaðargjarn sem alla virðist hafa líkað við og eiga foreldrar erfitt með að trúa að lögreglan gruni rétta manninn. Lögreglan hefur gert fjölda húsleita í Leeds að undanförnu vegna málsins og segir að rannsókninni miði vel áfram. Tveggja mínútna þögn var í Bretlandi klukkan ellefu að íslenskum tíma í dag til að minnast þeirra sem létust í sprengjuárásunum og stöðvuðust strætisvagnar og lestir á meðan. Neðanjarðarlestir héldu þó áfram ferð sinni en engar lendingar eða flugtök voru á Heathrow eða á Gatwick. Þá var einnig tveggja mínútna þögn víðsvegar í Evrópu í virðingu við þá sem létust. Múslimar í Bretlandi eru undrandi yfir því að hryðjuverkamennirnir hafi verið breskir ríkisborgarar. Í tilkynningu frá samtökum múslima í Bretlandi, segir að mikilvægt sé að fólk dæmi ekki alla múslima öfga- eða hryðjuverkamenn en fjölmörg dæmi eru um að þeir hafi verið áreittir eftir sprengingarnar. Tony Blair hefur beðið Breta um að sýna umburðarlyndi en um 1,6 milljón múslima búa í Bretlandi. Það eru ekki bara Bretar sem eru uggandi. Bandaríkjastjórn hefur ákveðið að auka eftirlit með þeim útlendingum sem koma til landsins og verða fingraför nú tekin af öllum. Heimavarnaráðherra Bandaríkjanna, segir þessa leið farna til að auka möguleika Bandaríkjamanna á að finna hryðjuverkamenn og hindra að þeir komist inn í landið. Hræðsla Bandaríkjamanna við hryðjuverk í landinu hefur aldrei verið meiri en nú og hafa múslimar verið áreittir þar í landi líkt og í Bretlandi að undanförnu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×