Sport

Scolari hættur við

Atburðarásin í kring um Luiz Scolari og enska landsliðið í knattspyrnu hefur verið sannkallaður farsi undanfarna daga og nú er kominn enn ein ný flétta í málið
Atburðarásin í kring um Luiz Scolari og enska landsliðið í knattspyrnu hefur verið sannkallaður farsi undanfarna daga og nú er kominn enn ein ný flétta í málið NordicPhotos/GettyImages

Nú rétt í þessu urðu heldur betur straumhvörf í landsliðsþjálfaramálum Englendinga, en fréttavefur BBC greindi fyrir stundu frá því að Luiz Scolari hefði ákveðið að hætta við að halda áfram samningaviðræðum við enska knattspyrnusambandið eftir að hann fékk að kynnast ágangi enskra fjölmiðla í aðeins tvo daga.

Scolari var staddur í Þýskalandi í dag og veitti hann viðtal á móðurmáli sínu, þar sem hann á að hafa greint frá þessum óvæntu tíðindum. BBC hefur eftirfarandi eftir Scolari.

"Enska knattspyrnusambandið er með þröngan nafnalista manna sem koma til greina í starfið, en nafn mitt er ekki lengur þar á meðal. Ég hef ákveðið að draga mig út úr samningaviðræðum við enska knattspyrnusambandið, því á tveimur dögum hafa blaðamenn náð að ryðja sér leið inn í einkalíf mitt og hafa ekki veitt mér stundarfrið. Það eru 20 blaðamenn fyrir utan heimili mitt þessa stundina og ef það er eitthvað sem fylgir knattspyrnumenningunni á Englandi, er það alls ekki eitthvað sem ég get hugsað mér," sagði Scolari.

Enska knattspyrnusambandið hefur ekki fengist til að gefa út yfirlýsingu í málinu, en viðurkennir að Scolari sé hættur við allt saman og ætli að einbeita sér að Portúgal í framtíðinni. Það má því ef til vill segja að breskir fjölmiðlar hafi í raun flæmt Scolari úr starfi áður en hann fékk tíma til að taka við því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×