Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, ítrekaði á mánudag gagnrýni Rússlandsstjórnar á Evrópuráðið, nú er Rússar eru í fyrsta sinn að taka við formennsku í ráðinu.
Evrópuráðið, sem 46 Evrópuþjóðir eiga aðild að og hefur fremur öðru því hlutverki að gegna að standa vörð um Mannréttindasáttmála Evrópu, er fyrsta samevrópska stofnunin sem Rússar veita forystu. Búist er við að rússneskir ráðamenn muni notfæra sér formennskumisserið til að koma böndum á gagnrýni þá sem ráðið hefur ítrekað beint gegn Rússum frá því þeir fengu aðild að ráðinu fyrir áratug.
Lavrov sakar ráðið um tvískinnung, að það beiti tvöföldum mælikvarða er það gagnrýnir Rússa fyrir hluti sem látnir væru óátaldir hjá öðrum aðildarþjóðum. Ráðið hefur einkum gagnrýnt rússnesk stjórnvöld fyrir gerðir þeirra í Tsjetsjeníu, fyrir meint mannréttindabrot af hálfu rússnesku lögreglunnar, svo og fyrir brot gegn prent-, félaga- og trúfrelsi sem og réttindum minnihlutahópa.
Rene van der Linden, formaður þingmannasamkomu Evrópuráðsins, sagði í yfirlýsingu að formennskumisseri Rússa gæfi þeim tækifæri til að "sýna að Rússland sé hluti af lýðræðislegri Evrópu, á jafnræðisgrundvelli."