Viðskipti innlent

Tekur sér stöðu á hliðarlínunni

Jafet Ólafsson tekur sæti í stjórn VBS þegar hann lýkur störfum þann 1. nóvember næst komandi.
Jafet Ólafsson tekur sæti í stjórn VBS þegar hann lýkur störfum þann 1. nóvember næst komandi. MYND/GVA

Jafet S. Ólafsson, stofnandi og framkvæmdastjóri VBS fjárfestingarbanka, hefur selt 24 prósent hlutafjár í VBS til Fjárfestingarfélags sparisjóðanna (FSP) sem er í eigu tuttugu sparisjóða.

Jafet, sem heldur eftir smáhlut, ætlar að halda utan um stjórnartaumana fram til fyrsta nóvember en sest þá í stjórn fyrirtækisins. Maður er að fara á hliðarlínuna eins og það kallast í boltanum. Ég verð ekki lengur í sókninni. Ekki hefur verið gengið frá ráðningu eftirmanns hans en stefnt er að því að ráða Jón Þórisson, sem fer fyrir fyrirtækjasviði VBS, til starfa.

Jafet segir að VBS hafi vaxið um fimmtíu prósent árlega frá því að Verðbréfastofan var stofnuð fyrir áratug. Við byrjuðum með þrjá starfsmenn og erum 24 í dag. Fyrirtækið hagnaðist um fjögur hundruð milljónir króna í fyrra. Hann býst ekki við stórvægilegum breytingum en telur að FSP, með sína sterku bakhjarla, gefi VBS færi á frekari landvinningum.

Eftir kaupin verður FSP leiðandi hluthafi í VBS með 37 prósenta hlut en samanlagt eiga sparisjóðir tæpan helmingshlut í bankanum þar sem SPM og Sparisjóðurinn í Vestmannaeyjum eiga beinan eignarhlut. Jafet telur ekki ólíklegt eftir eigendaskiptin að horft verði á samþættingu milli reksturs VBS og Verðbréfaþjónustu sparisjóðanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×