Enski boltinn

Segir leikmönnum að sýna meiri hörku

Dennis Wise kallar ekki allt ömmu sína
Dennis Wise kallar ekki allt ömmu sína NordicPhotos/GettyImages

Harðjaxlinn Dennis Wise er nú þegar farinn að setja svip sinn á lið Leeds United og er farinn að taka til í herbúðum liðsins, sem hefur gengið afleitlega í deildinni að undanförnu. Wise er búinn að skipta um fyrirliða og óskar eftir því við leikmann að þeir sýni sömu hörku og leikmenn liðsins voru þekktir fyrir hér áður fyrr.

"Ég vil að menn séu harðir í horn að taka á vellinum og sýni samstöðu eins og Leeds var þekkt fyrir hér í eina tíð. Þannig vinna þeir þessa frábæru stuðningsmenn okkar á sitt band," sagði Wise sem er búinn að færa Kevin Nicholls fyrirliðabandið í stað Paul Butler.

"Það er mikilvægt að ungur og upprennandi leikmaður sé fyrirliði liðsins," sagði Wise, en Leeds er nú í næst neðsta sæti 1. deildarinnar með aðeins 10 stig eftir 13 leiki.

"Það kom mér gríðarlega á óvart hve illa liðið byrjaði leiktíðina með alla þessa hæfileika í hópnum og ég sagði leikmönnunum það. Menn vita það vel að ég er alls ekki hræddur við að rusla til í hópnum ef menn eru ekki að standa sig - og það eina sem skiptir máli er að leikmennirnir viti hvað ég vil og ég hvað þeir vilja. Ég sé mjög fljótt hvaða leikmenn það eru sem vilja spila fyrir þetta félag og hverjir það eru sem vilja fara eitthvað annað," sagði Wise, sem á eflaust eftir að valda nokkru fjaðrafoki á meðal leikmanna á næstunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×