Sport

Thuram býður heimilislausum á völlinn

Lilian Thuram hefur gagnrýnt stjórnmálamenn í Frakklandi harðlega fyrir hægrisinnuð vinnubrögð í málum innflytjenda
Lilian Thuram hefur gagnrýnt stjórnmálamenn í Frakklandi harðlega fyrir hægrisinnuð vinnubrögð í málum innflytjenda NordicPhotos/GettyImages

Franski landsliðsmaðurinn Lilian Thuram hefur valdið nokkru fjaðrafoki í heimalandi sínu með því að bjóða 80 heimilislausum innflytjendum á leik Frakka og Ítala í París í kvöld, en leikurinn verður sýndur beint á Sýn og leikur Makedóníu og Englands verður sýndur beint á Sýn Extra klukkan 20.

Þetta uppátæki Thuram hefur vakið mikla athygli í Frakklandi og vakti að sama skapi litla hrifningu hægrisinnaðra stjórnmálamanna þar í landi, en mörgum er enn í fersku minni óeirðirnar sem áttu sér stað í Frakklandi í fyrra og áttu rót að rekja til heimilislausra innflytjenda.

Einn innflytjendanna sem Thuram hefur boðið á leikinn í kvöld sagði þetta senda sterk skilaboð um það að franska landsliðið kærði sig kollótt um þjóðerni eða húðlit íbúa í landinu. Það þótti bera vott um hræsni í sumar þegar aðstandendur franska landsliðsins rómuðu fjölþjóðasveitina sem spilaði fyrir hönd þjóðarinnar, en á meðan væri upplausn í málum innflytjenda í landinu.

Talsmaður hægrimanna í frönskum stjórnmálum tók uppátæki Thuram illa og sagði hlutverk knattspyrnumanna vera að spila fótbolta og benti á að á meðan fjöldi Frakka væri á biðlista eftir húsnæði, væru stjórnvöld að eyða púðri í að hýsa ólöglega innflytjendur í landinu.

Íþróttamálaráðherra Frakka segir hinsvegar að landsliðsmönnunum sé frjálst að bjóða hverjum sem þeir vilja á leiki landsliðsins, en ættu þó að fara varlega í þeim efnum og gæta þess að misnota ekki nafn landsliðsins.

Nicolas Sarkozy, innanríkisráðherra Frakka, hefur lofað að herða reglur um ólöglega innflytjendur í landinu til muna eftir óeirðirnar í fyrra og stefnir að því að vísa þúsundum þeirra úr landi á árinu. Thuram hefur gagnrýnt ráðherrann harðlega og því fer uppátæki hans í dag væntanlega illa í ráðherrann.

Tæpar 5 milljónir innflytjenda eru sagðar búa í Frakklandi í dag og talið er að á milli 200-400.000 þeirra séu ólöglegir innflytjendur. Lilian Thuram og Thierry Henry í franska landsliðinu eiga ættir að rekja til Vestur Indía og þá eru leikmenn eins og Claude Makelele og Patrick Vieira ættaðir frá Afríku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×