Erlent

Skírður Kristján Valdimar Hinrik Jóhann

Danski ríkisarfinn, sonur Friðriks krónprins og konu hans Mary Donaldson, var skírður nú fyrir stundu og hlaut nafnið Christian Valdemar Henri John eða Kristján Valdimar Hinrik Jóhann eins og það myndi kallast upp á íslensku. Mary hélt á barni þeirra hjóna undir skírn.

Danska þjóðin fylgdist hugfangin með því þegar Friðrik krónprins og hin ástralska kona hans Mary Donaldson komu til hallarkirkjunnar við Kristjánshöfn í Kaupmannahöfn í morgun, með þriggja mánaða barn sitt. Móðir Friðriks, Margrét Þórhildur drottning, fæddist þegar Ísland var enn hluti af Danmörku. Friðrik tekur við af henni sem konungur og litla barnið sem var skírt í dag tekur við af honum. Nafnið kom fæstum á óvart: Christian Valdemar Henri John, sagði presturinn.

Flestir höfðu giskað á að prinsinn fengi nafnið Kristján - og Kristján litli sem þarna er skírður var í skírnarkjól sem fyrst var notaður þegar Kristján tíundi var skírður árið 1870. Nöfnin Henri og John fær hann í höfuðið á öfum sínum - Hinrik eiginmanni Margrétar Danadrotningar og John Donaldson, föður Mary. Nú taka við ýmsar athafnir í tengslum við skírnina og í kvöld verður málsverður í kansellíhúsinu í Fredensborgarhöll fyrir nánustu ættingja.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×