Viðureign LA Lakers og Phoenix Suns á undirbúningstímabilinu í NBA verður sýnd í beinni útsendingu á NBA TV sjónvarpsstöðinni á Digital Ísland í kvöld. Leikurinn fer fram í Las Vegas og hefst klukkan hálf tvö eftir miðnætti.
Kobe Bryant verður líklega ekki með liði Lakers í nótt því hann er að jafna sig eftir uppskurð, en það hefur ekki komið að sök í þeim tveimur æfingaleikjum sem liðið hefur spilað til þessa því þeir hafa báðir unnist.
Amare Stoudemire verður væntanlega með liði Phoenix í nótt, en forvitnilegt verður að sjá hvernig þessum frábæra leikmanni gengur að komast af stað á ný eftir að hafa ekkert geta spilað á síðustu leiktíð eftir hnéuppskurð. Hann segist sjálfur vera orðinn nær 100% heill og í kvöld fá áhorfendur NBA TV væntanlega að sjá hvort það reynist rétt.