Enski boltinn

Englendingar mjög slakir

Gary Neville. Vonbrigði Englendinga í leikslok leyndu sér ekki.
Gary Neville. Vonbrigði Englendinga í leikslok leyndu sér ekki.

Enskir fjölmiðlar voru mjög óánægðir með frammistöðu landsliðs síns í leiknum gegn Makedóníu í undankeppni EM í gær. Lokatölur urðu 0-0 í leik sem gestirnir frá Makedóníu hefðu vel getað unnið. Helstu ensku miðlarnir fóru hörðum orðum um enska liðið og sagði það einfaldlega vera lélegt um þessar mundir.

„Það er margt sem við þurfum að bæta fyrir næsta leik, það er klárt mál. Sóknarleikurinn var vægast sagt bitlaus hjá okkur,“ sagði Steve McClaren, þjálfari Englands.

Ein óvæntustu úrslit gærdagsins urðu í Skotlandi þegar heimamenn unnu frækinn sigur gegn Frökkum, 1-0. Það var varnarmaður Celtic, Gary Caldwell, sem skoraði sigurmarkið en Skotland hefur unnið alla leiki sína í undankeppninni til þessa. „Þetta er magnað, alveg ótrúleg úrslit. Ein þau bestu í sögu Skotlands,“ sagði Caldwell eftir leikinn en Frakkar áttu aldrei roð í fríska Skota, sem virðast vera að rifna úr sjálfstrausti eftir gott gengi að undanförnu.

Landsliðin frá Bretlandi áttu annars vondan dag í gær því Írar steinlágu fyrir Kýpur, 5-2, og Wales tapaði fyrir Slóvakíu á heimavelli, 1-5.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×