Enski boltinn

Jol hefur áhyggjur af hnénu á Lennon

Aaron Lennon hefur ekki náð sér að fullu eftir hnéuppskurð í ágúst
Aaron Lennon hefur ekki náð sér að fullu eftir hnéuppskurð í ágúst NordicPhotos/GettyImages

Martin Jol, stjóri Tottenham í ensku úrvalsdeildinni, segist vonast til að enski landsliðsmaðurinn Aaron Lennon verði orðinn klár í slaginn þegar liðið mætir Southend í deildarbikarnum á miðvikudag. Lennon fór í uppskurð á hné í haust og virðist enn ekki hafa náð sér að fullu.

"Aaron fór í uppskurð í ágúst og var farinn að finna til í hnénu, svo ég ákvað að hvíla hann í leiknum gegn Manchester City um helgina. Hann er stundum aumur í hnénu og við verðum því að spara hann annað slagið, en ég vona að hann verði klár á miðvikudaginn," sagði Jol og hrósaði um leið öðrum ungum leikmanni í hóp sínum - miðjumanninum Tom Huddlestone.

"Tom er aðeins 19 ára gamall en menn gleyma því að hann spilaði yfir 100 leiki fyrir Derby áður en hann varð 18 ára gamall. Hann er mjög einbeittur og staðráðinn í að verða betri knattspyrnumaður, enda sagði ég honum í sumar að hann ætti eftir að spila mikið hjá okkur í vetur," sagði Jol um hinn kraftvaxna varnartengilið sem hefur verið einn besti leikmaður liðsins að undanförnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×