Körfubolti

Miami - Memphis í beinni í kvöld

Dwyane Wade snýr aftur eftir tveggja leikja fjarveru vegna tannuppskurðar
Dwyane Wade snýr aftur eftir tveggja leikja fjarveru vegna tannuppskurðar NordicPhotos/GettyImages

Meistarar Miami Heat taka á móti Memphis Grizzlies í beinni útsendingu á NBA TV sjónvarpsstöðinni í kvöld klukkan hálf eitt. Bæði lið hafa átt mjög erfitt uppdráttar það sem af er vetri, en Dwyane Wade hjá Miami og Pau Gasol hjá Memphis snúa aftur eftir meiðsli í kvöld og því má eiga von á skemmtilegum leik.

Miami hefur farið mjög illa af stað ef tekið er mið að því að hér er um að ræða NBA meistarana sjálfa, en liðið hefur aðeins unnið 9 af fyrstu 22 leikjum sínum. Liðið hefur að mestu verið án Shaquille O´Neal sem er meiddur og þá hefur Dwyane Wade misst úr tvo síðustu leiki vegna þess að draga þurfti úr honum tennur. Hann mætir væntanlega öskrandi til leiks í nótt og Vísir.is tippar á 37 stig frá kappanum að þessu sinni.

Memphis hefur verið eitt lélegasta liðið í NBA í vetur og það kemur að mestu til vegna meiðsla besta manns HM í sumar - Spánverjans Pau Gasol. Hann sneri loks aftur í síðasta leik eftir að hafa fótbrotnað í undanúrslitaleiknum á HM og á eflaust eftir að styrkja lið Memphis mikið. Ekki veitir af, því liðið hefur aðeins unnið 5 leiki og tapað 18 það sem af er vetri. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×