Fótbolti

Luis Aragones argur eftir tapið gegn Rúmeníu

Aragones er vægast sagt orðinn valtur í sessi.
Aragones er vægast sagt orðinn valtur í sessi. AFP

Luis Aragones, landsliðsþjálfari Spánverja, lét hafa eftir sér að hann væri pirraður yfir tapi spænska liðsins gegn Rúmenum í æfingaleik þjóðanna á miðvikudaginn. Leikurinn var á heimavelli Spánverja og endaði með 1-0 sigri Rúmena.

„Fyrri hálfleikurinn var með því besta sem spænskt landslið hefur sýnt en ég er aldrei ánægður eftir tapleik. Við vorum betra liðið og sköpuðum marktækifæri en vorum taugaóstyrkir upp við mark þeirra. Ef maður nýtir ekki tækifærin sem gefast til að gera út um leiki þá getur þetta gerst," sagði Aragones.

Spænskir fjölmiðlar fóru ekki fögrum orðum um landsliðið og mörgum þykir það hulin ráðgáta af hverju Aragones sé enn í starfi landsliðsþjálfara. Spánverjar eru í sama riðli og við Íslendingar í undankeppni EM. - dsd




Fleiri fréttir

Sjá meira


×