Enski boltinn

Pardew biður stuðningsmenn West Ham afsökunar

Alan Pardew var ekki sáttur við sína menn í kvöld enda nær liðið ekki að slíta sig upp af fallsvæðinu
Alan Pardew var ekki sáttur við sína menn í kvöld enda nær liðið ekki að slíta sig upp af fallsvæðinu NordicPhotos/GettyImages

Alan Pardew var ekki par hrifinn af frammistöðu sinna manna í West Ham í kvöld þegar liðið lá 2-0 á heimavelli fyrir Wigan fyrir framan þá Eggert Magnússon og Björgólf Guðmundsson sem sátu í heiðursstúkunni.

"Frammistaða okkar var okkur sjálfum til lítils sóma og mig langar að biðja stuðningsmenn okkar sem borguðu sig inn á leikinn afsökunar fyrir hönd leikmanna liðsins. Ef leikmenn þessa liðs ætla að vera áfram í úrvalsdeildinni verða þeir að gjöra svo vel að fara að axla ábyrgð. Það er eins gott að menn fari að kveikja á því að við erum komnir í vond mál í þessari deild og ég hef grun um að menn sjái það líka þegar þeir koma heim í kvöld og skoða stöðuna í deildinni," sagði Pardew.

Paul Jewell hjá Wigan var að vonum sáttari við frammistöðu sinna manna sem voru teknir í bakaríið af Liverpool á heimavelli sínum í síðustu umferð. "Ég sagði strákunum að þeir yrðu að sína mér úr hverju þeir eru gerðir í kvöld og þeir gerðu það svo sannarlega. Það er mjög erfitt að koma hingað á Upton Park og spila fyrir framan þessa hávaðasömu áhorfendur og því verður maður að reyna að lækka í þeim rostann frá byrjun. Það tókst okkur og við réðum ferðinni frá upphafi til enda."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×