Enski boltinn

Of mikil pressa á útlendingunum

Stuart Pearce segir enska gera of miklar kröfur á útlendinga í úrvalsdeildinni
Stuart Pearce segir enska gera of miklar kröfur á útlendinga í úrvalsdeildinni NordicPhotos/GettyImages

Stuart Pearce, knattspyrnustjóri Manchester City, segir að útlenskum leikmönnum í ensku úrvalsdeildinni sé ekki sýnd næg þolinmæði og bendir á að stuðningsmenn geri óraunhæfar væntingar til manna sem eru að rífa fjölskyldu sína upp og flytja búferlum til landa með gjörólíka menningu.

Pearce segir þetta í samtali við heimasíðu City í kjölfar þess að ítalski framherjinn Bernardo Corradi fann loks netmöskvana með liðinu um helgina.

"Bretar eru dálítið hrokafullir og ætlast til þess að erlendir leikmenn smelli strax inn í allt sem við erum að gera hérna, en það er nú auðveldlega hægt að benda á að enskum leikmönnum hefur nú ekki alltaf gengið svo glæsilega að spila erlendis. Það er erfitt fyrir menn eins og Corradi að koma hingað og venjast nýrri menningu og nýrri leikaðferð, enda þurftum við að beita öllum okkar sannfæringarkrafti til að lokka hann hingað eftir að honum gekk illa að fóta sig á Spáni á sínum tíma," sagði Pearce.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×