Sport

Ekkert að marka sterka byrjun Manchester United

Arsene Wenger er nokkuð bjartsýnn fyrir leikinn á Old Trafford á sunnudag
Arsene Wenger er nokkuð bjartsýnn fyrir leikinn á Old Trafford á sunnudag NordicPhotos/GettyImages

Arsene Wenger segir að enn sé ekki að marka sterka byrjun Manchester United í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu og segir að það taki lágmark tíu leiki að sjá hvar liðið stendur. Arsenal hefur enn ekki unnið leik í deildinni og segja má að Lundúnaliðið sé í vondum málum ef það tapar á Old Trafford á sunnudaginn.

"Það er of snemmt að segja til um það hvort United hefur það sem til þarf til að berjast um titilinn. Það eina sem hægt er að segja um liðið er að þeir hafa byrjað mjög vel og það lofar vissulega góðu fyrir framhaldið," sagði Wenger, sem vill ekki einblína um of á stöðu mála ef lið hans tapar þessum erfiða útileik.

"Ef maður tapar leik, er maður alltaf þremur stigum lengra á eftir mótherjunum en maður var fyrir leikinn, en við eigum enn leik til góða. Við munum fara á Old Trafford til að sigra og ég veit að við eigum ágæta möguleika á því. Ef við höldum einbeitingu, spilum okkar leik og vinnum varnarvinnuna - eigum við ágæta möguleika á móti Manchester United," sagði Wenger.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×