Enski boltinn

Skammar Mido fyrir ummæli sín

Mido kom sér í vandræði með ummælum sínum um Sol Campbell, sem enn er kallaður Júdas á White Hart Lane síðan hann yfirgaf félagið á sínum tíma og gekk í raðir Arsenal
Mido kom sér í vandræði með ummælum sínum um Sol Campbell, sem enn er kallaður Júdas á White Hart Lane síðan hann yfirgaf félagið á sínum tíma og gekk í raðir Arsenal NordicPhotos/GettyImages

Martin Jol var ekki par hrifinn af ummælum framherja síns Mido í dag, en í samtali við bresku slúðurblöðin sagði Egyptinn að Sol Campbell væri auðveldasti andstæðingur sem hann hefði mætt á knattspyrnuvellinum. Þessi ummæli framherjans hafa eflaust vakið gleði stuðningsmanna Tottenham, en Jol hefur aðrar hugmyndir um upphitun fyrir leik Tottenham og Portsmouth á morgun.

Sol Campbell hefur verið frábær með liði Portsmouth í upphafi leiktíðar og hefur liðið verið rómað fyrir sterkan varnarleik með Campbell fremstan í flokki. Campbell hefur verið hataður á White Hart Lane í mörg ár eftir að hann kaus að fara frá Tottenham og ganga í raðir erkifjendanna í Arsenal á sínum tíma.

"Ég talaði við Mido og sagði honum að ummæli hans væru ekki aðeins vanvirðing við mótherjann, heldur væri þetta mjög óábyrg hegðun. Maður segir ekki svona við mótherja sína og í ljósi þess hver staða Sol Campbell er á meðal stuðningsmanna okkar - voru orð Mido mjög óábyrg," sagði Martin Jol og óttast greinilega viðbrögð stuðningsmanna Tottenham þegar Campbell kemur í heimsókn á morgun, en hann hefur áður sagt að sér blöskri mjög hve langræknir stuðningsmenn Tottenham eru.

Annars er það að frétta af liði Tottenham að búlgarski framherjinn Dimitar Berbatov verður líklega klár í slaginn á morgun eftir meiðsli og sömu sögu gæti verið að segja af þeim Ledley King, Paul Stalteri, Edgar Davids og jafnvel Jermain Defoe.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×