Sport

Lokaæfingu hætt snemma vegna hörku

Lawrie Sanchez ætlar ekki að vanmeta íslenska landsliðið
Lawrie Sanchez ætlar ekki að vanmeta íslenska landsliðið NordicPhotos/GettyImages

Lawrie Sanchez segir að norður-írska landsliðið sé að hugsa um þjóðarstoltið en ekki peningagræðgi nú þegar það leggur lokahönd á undirbúninginn fyrir fyrsta leik sinn í undankeppni EM gegn Íslendingum á morgun. Sanchez flautaði lokaæfinguna af snemma í dag, því honum þótti komið full mikið kapp í sína menn.

Írska liðinu var í dag lofað bónus upp á rúma milljón punda ef það næði að komast upp úr riðli sínum í undankeppninni, en Sanchez segir leikmenn ekki spila með landsliðinu með það fyrir huga að græða peninga.

"Leikmennirnir eru óðir og uppvægir í að spila fyrir hönd þjóðar sinnar og eru ekki að hugsa um peninga. Þeir eru fyrst og fremst að hugsa um að ná að spila eins marga landsleiki og þeir geta," sagði Sanchez, sem eins og áður sagði flautaði lokaæfinguna af fyrr en áætlað var í dag, því honum þótti kappið full mikið í sínum mönnum.

"Þeir voru farnir að fljúga full hressilega í tæklingar fyrir minn smekk og ég vildi ekki missa einn þeirra í meiðsli rétt fyrir leik. Það er mikil samkeppni um stöður í liðinu og þeir sem eru fyrir utan liðið eru virkilega að láta finna fyrir sér," sagði Sanchez og bætti við að íslenska liðið væri sannarlega sýnd veiði en ekki gefin.

"Við erum vissulega langt fyrir ofan Ísland á styrkleikalistanum, en ég held samt að íslenska liðið geti státað af mun fleiri leikmönnum sem spila í sterkum deildum. Við ætlum engu að síður að koma út sem hetjur en ekki skúrkar á okkar heimavelli á morgun," sagði Sanchez.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×