Sport

Frakkar ekki í hefndarhug

Thierry Henry segir Frakka ekki í hefndarhug
Thierry Henry segir Frakka ekki í hefndarhug AFP

Leikmenn franska landsliðsins í knattspyrnu segjast ekki vera í sérstökum hefndarhug þegar þeir taka á móti Ítölum á Stade de France í París annað kvöld í undankeppni EM. Liðin mætast nú aðeins nokkrum vikum eftir að hafa háð blóðuga baráttu um HM-styttuna í Þýskalandi í júlí, en í þetta sinn verður það án leikmannanna tveggja sem voru í eldlínunni í úrslitaleiknum.

Zinedine Zidane hefur lagt skóna á hilluna með franska landsliðinu og ítalski varnarmaðurinn Marco Materazzi er enn í leikbanni. Thierry Henry, framherji franska landsliðsins, segir liðið ekki vera í hefndarhug fyrir leikinn stóra annað kvöld - sem sýndur verður beint á Sýn.

"Þetta má ekki snúast um að hefna sín. Ítalir eru ekki að leggja heimsmeistaratitilinn að veði þegar þeir koma til París, heldur er þetta ný keppni sem er algjörlega óskyld hinni. Það eina sem skiptir máli í þessum leik er að ná í þrjú stig - því við erum í gríðarlega erfiðum riðli," sagði Henry.

Úkraína, Skotland, Georgía, Litháen og Færeyjar eru með Ítölum og Frökkum í riðlinum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×