Sport

Eyjólfur ætlar að fara varlega

Eyjólfur Sverrisson ætlar að tefla varlega gegn fyrnasterku liði Dana annað kvöld
Eyjólfur Sverrisson ætlar að tefla varlega gegn fyrnasterku liði Dana annað kvöld mynd/anton brink

Nú rétt í þessu var að ljúka blaðamannafundi íslenska landsliðsins fyrir leikinn gegn Dönum í undankeppni EM sem fram fer annað kvöld. Fátt var um stórtíðindi á fundinum þar sem þeir Eyjólfur Sverrisson, Eiður Smári Guðjohnsen og Hermann Hreiðarsson sátu fyrir svörum í beinni útsendingu á NFS.

Eyjólfur ætlar að spila varlega gegn sterku liði Dana annað kvöld, hann segir leikinn réttilega byrja í stöðunni 0-0 og íslenska liðið muni fara varfærnislega inn í leikinn, enda sé danska liðið mjög vel spilandi.

Engin teljandi meiðsli eru í íslenska hópnum, sem verður sá sami og vann frækinn sigur á Norður-Írum um síðustu helgi. Kári Árnason hefur náð sér af veikindum sínum og þá verður Kristján Finnbogason áfram varamarkvörður í stað Daða Lárussonar sem er meiddur.

Annars má segja að Hermann Hreiðarsson hafi stolið senunni á bragðdaufum blaðamannafundinum í dag, því farsími hans hringdi látlaust á meðan fundinum stóð og virtist varnarjaxlinn eiga í mestu vandræðum með að slökkva á tækinu - enda uppskar hann hlátur félaga sinna sem sátu til borðs með honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×