Sport

Brasilía gæti lent í vandræðum

Lothar Matthaus
Lothar Matthaus NordicPhotos/GettyImages

Lothar Matthaus, sem var fyrirliði Þjóðverja þegar liðið varð heimsmeistari árið 1990, spáir að heimsmeistarar Brasilíu eigi eftir að lenda í vandræðum í Þýskalandi í sumar og tippar á að Argentínumenn og Englendingar fari langt í keppninni.

"Ég held að Þjóðverjar komist örugglega upp úr sínum riðli á mótinu en eftir það mæta þeir líklega Englendingum eða Svíum og þá fer nú róðurinn að þyngjast hjá þeim. Þýskaland hefur ekki yfir jafn mörgum góðum leikmönnum að ráða eins og þjóðir á borð við Englendinga, Argentínumenn og Ítali," sagði Matthaus, sem telur að markvörðurinn Paul Robinson hjá Tottenham gæti gert gæfumuninn í enska liðinu á mótinu.

"Enska liðið er sterkara nú en á síðustu tveimur stórmótum, ekki síst út af Paul Robinson í markinu, því það er ekki nóg að vera með gott lið í svona keppni ef þú ert ekki með góðan markvörð. Ég tel enska liðið eiga góða möguleika á að gera vel í sumar, enda hefur það innan sinna raða sterka leikmenn eins og Rooney, Lampard, Gerrard og Beckham," sagði Matthaus og bætti við að hann reiknaði ekki með að Brasilíumenn næðu að sigra á mótinu í sjötta sinn.

"Varnarleikur Brasilíumanna er alls ekki nógu góður og ég held að það verði liðinu að falli í sumar. Þeir eru ekki með nógu góða vörn til að verja titil sinn og ég held meira að segja að þeir gætu lent í miklum vandræðum að komast upp úr riðlinum sínum. Ástralir eru með ágætt lið og frábæran þjálfara, Japan hefur staðið vel í þeim í gegn um tíðina og er með þjálfara sem gjörþekkir brasilískan fótbolta - og þá má ekki gleyma króatíska liðinu sem er mjög sterkt og hefur verið með ágætt tak á Brasilíu í æfingaleikjum." 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×