Enski boltinn

Birmingham verður í hefndarhug

Steve Bruce og félagar í Birmingham riðu ekki feitum hesti á síðustu leiktíð en gengi liðsins hefur verið öllu betra í vetur
Steve Bruce og félagar í Birmingham riðu ekki feitum hesti á síðustu leiktíð en gengi liðsins hefur verið öllu betra í vetur NordicPhotos/GettyImages

Rafa Benitez reiknar fastlega með því að lið Birmingham verði í miklum hefndarhug í kvöld þegar liðið tekur á móti Liverpool í enska deildarbikarnum, en þessi lið mættust í bikarkeppninni á síðustu leiktíð og þá sigraði Liverpool 7-0.

"Þessi leikur verður ekkert í líkingu við leikinn á síðasta tímabili, þetta verður mjög erfiður leikur. Liðin eru öðruvísi skipuð nú en í fyrra og ég er búinn að tala við Jermaine Pennant sem lék með Birmingham á síðustu leiktíð og hann segir mér að það sé mikill hugur í mönnum í þeirra herbúðum. Birmingham var í erfiðleikum á síðustu leiktíð en gengur vel núna og ég er viss um að þar á bæ ætli menn sér stóra hluti í ár," sagði Benitez.

Liverpool verður án fyrirliðans Steven Gerrard, Luis Garcia, Jose Reina og Sami Hyypia í leiknum í kvöld þar sem þeim er ætlað að hvíla fyrir erfiðan deildarleik gegn Arsenal á sunnudaginn. Þetta þýðir væntanlega að menn á borð við Jerzy Dudek, Robbie Fowler, Craig Bellamy, Daniel Agger og Gabriel Paletta fái að spila í kvöld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×