Innlent

Berglind Ásgeirsdóttir nýr skrifstofustjóri viðskiptaskrifstofu

Berglind Ásgeirsdóttir
Berglind Ásgeirsdóttir MYND/OECD

Berglind Ásgeirsdóttir sendiherra hefur tekið við stöðu skrifstofustjóra viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins. Berglind hefur, undanfarin fjögur ár, gegnt stöðu aðstoðarforstjóra Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, í París, þar sem hún fór m.a. með félags-, heilbrigðis- og menntamál, auk þess sem almannatengsl, umhverfismál og sjálfbær þróun heyrðu undir starfssvið hennar.

Berglind gegndi áður embætti ráðuneytisstjóra í félagsmálaráðuneytinu og framkvæmdastjóra Norðurlandaráðs, en starfaði þar áður um tíu ára skeið í utanríkisráðuneytinu. Berglind tekur við stöðu skrifstofustjóra viðskiptaskrifstofu af Grétari Má Sigurðssyni sem hefur tekið við embætti ráðuneytisstjóra í utanríkisráðuneytinu. Grétar tók aftur við af Gunnari Snorra Gunnarssyni sem er nýr sendiherra Íslands í Kína. Þá hafa Benedikt Jónsson sendiherra, Martin Eyjólfsson sendifulltrúi og Friðrik Jónsson sendiráðunautur komið til starfa á viðskiptaskrifstofu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×