Sport

FIFA rannsakar nasistakveðjur Króata

Það var heitt í kolunum í áhorfendastæðunum á leik Ítala og Króata á dögunum
Það var heitt í kolunum í áhorfendastæðunum á leik Ítala og Króata á dögunum NordicPhotos/GettyImages

Króatíska knattspyrnusambandið hefur þurft að svara til saka fyrir hönd stuðningsmanna landsliðsins sem voru með nasistaáróður á vináttuleik Króata og Ítala á dögunum. Hegðun stuðningsmannanna er litin mjög alvarlegum augum hjá FIFA og gætu króatar átt yfir höfði sér harðar refsingar vegna þessa.

Forseti króatíska knattspyrnusambandsins fordæmdi hegðun stuðningsmanna þessara og sagði þá ekki standa fyrir stuðningsmenn króatíska landsliðsins, heldur einstaklinga sem kærðu sig kollóta um annað en sjálfa sig.

Hópurinn sem stóð fyrir þessari ósmekklegu athöfn ku vera stuðningsmenn knattspyrnuliðsins FC Rijeka, sem kalla sig Armada, og hafa játað að hafa myndað svastiku í stúkunni og að heilsa stuðningsmönnum ítalska liðsins með nasistakveðjum. Króatarnir sögðust aðeins hafa verið að bregðast við ögrunum Ítala í stúkunni sem flaggað hefðu júgóslavneska fánanum og kommúnistatáknum.

Þess má að lokum geta að Króatar höfðu 2-0 sigur í leiknum, en ítalska liðið var að engu skipað leikmönnum sem urðu heimsmeistarar í Þýskalandi í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×