Enski boltinn

Klístri snýr aftur annað kvöld

Alan "Klístri" Smith ætlar að vinna sér sæti í byrjunarliðinu á ný
Alan "Klístri" Smith ætlar að vinna sér sæti í byrjunarliðinu á ný NordicPhotos/GettyImages

Framherjinn Alan Smith spilar væntanlega sinn fyrsta leik í níu mánuði í byrjunarliði Manchester United annað kvöld þegar liðið sækir Crewe heim í enska deildarbikarnum. Leikurinn verður sýndur beint á Sýn.

Smith fót- og ökklabrotnaði illa í leik gegn Liverpool á síðustu leiktíð og hefur aðeins komið inn sem varamaður í leikjum United, sem vann einmitt sigur á Crewe á sama stigi þessarar keppni fyrir tveimur árum.

Meiðsli Smith forðum voru ansi ljót en liðið vann enska deildarbikarinn átta dögum eftir að hann meiddist á síðustu leiktíð og eftir sigurinn í úrslitaleiknum klæddust allir leikmenn United bolum sem á stóð "Við elskum þig, Klístri" - en það var sérstök batakveðja til Smith sem gengur undir þessu skemmtilega viðurnefni fyrir hárgreiðslur sínar.

Smith segist ekki hugsa um meiðsli sín þegar hann gengur inn á völlinn í dag og er ákveðinn í að sanna sig. "Það er enginn sálfræðiþröskuldur fyrir mig að yfirstíga, því ég meiddi mig ekki í tæklingu eða neinu slíku," sagði Smith og bætti við að hann og félagar hans tækju bikarkeppnina alvarlega.

"Hér leggja menn alltaf fullt kapp á að vinna alla bikara sem eru í boði og því munum við sannarlega gera allt til að vinna deildarbikarinn. Við unnum þessa keppni í fyrra og viljum gera það aftur. Það eru líka leikmenn að koma úr meiðslum eins og ég og þeir vilja líka ná að vinna sér sæti í byrjunarliðinu og því hlökkum við mikið til leiksins," sagði Smith í samtali við heimasíðu United.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×