Enski boltinn

Shevchenko ekki í úrvalsliði Mourinho

NordicPhotos/GettyImages

Jose Mourinho segir að það séu aðeins bestu leikmennirnir hverju sinni sem fái sæti í liði Chelsea og hefur lýst því yfir að Andriy Shevchenko sé ekki einn þeirra, að minnsta kosti ekki í augnablikinu. Mikið er rætt um framtíð framherjans á Englandi þessa dagana.

"Ef Abramovic (eigandi Chelsea) treystir mér ekki til að velja liðið sjálfur, á hann næga peninga til að reka mig," sagði Mourinho þegar hann var spurður út í Shevchenko og samband hans við eiganda Chelsea.

"Sheva er ekki ósnertanlegur vegna spilamennsku sinnar undanfarið. Ég læt alltaf mína bestu menn spila hverju sinni og hann er ekki einn af þeim núna. Makelele, Essien og Lampard eru ósnertanlegir vegna þess hve vel þeir spila - ekki af því mér sé frekar annt um þá en aðra leikmenn.

Ballack er ósnertanlegur vegna þess hverig hann spilar og sömu sögu er að segja af Carvalho, Terry Cole og Drogba," sagði Mourinho, en tók þó upp hanskann fyrir Shevchenko að lokum.

"Það er einfaldlega gjörólíkt hvernig boltinn er spilaður á Ítalíu eða á Englandi og besta dæmið um það er Thierry Henry þegar hann kom fyrsti til Arsenal á sínum tíma. Hann skoraði aðeins 1 mark í fyrstu 12 leikjum sínum með liðinu, en hann hefur eins og allir vita verið besti framherji deildarinnar undanfarin ár.

Menn þurfa einfaldlega tíma til að aðlagast og það góða við Sheva er að hann er óánægður með það hvernig hann er að spila um þessar mundir og hann má líka vera það," sagði Mourinho.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×