Enski boltinn

Ætlar að taka vel á móti Wenger

Alan Pardew ætlar að taka vel á móti Arsene Wenger og segist ekkert hafa á móti liði Arsenal
Alan Pardew ætlar að taka vel á móti Arsene Wenger og segist ekkert hafa á móti liði Arsenal NordicPhotos/GettyImages

Alan Pardew segist ekki hafa neitt á móti Arsene Wenger knattspyrnustjóra Arsenal og segist ætla að taka vel á móti honum þegar Arsenal mætir West Ham á Upton Park um helgina. Pardew gagnrýndi lið Arsenal fyrir að vera með eintóma útlendinga í liðinu á síðustu leiktíð og féllu þessi ummæli í mjög grýttan jarðveg.

Nokkuð var til í því sem Pardew sagði á síðustu leiktíð, en hann benti einfaldlega á það að Englendingar væru æ sjaldgæfari á leikmannaskýrslum liðsins. Wenger brást nokkuð reiður við þessu og sagði undirtóninn í ummælum Pardew bera vott um kynþáttafordóma.

"Ég talaði um að það væri skömm að væri ekki enskur leikmaður í liðinu á þessum tíma þegar því gekk sem best í meistaradeildinni, en ég hélt að sjálfssögðu með Arsenal í úrslitaleiknum. Ummæli mín voru blásin upp sem eitthvað allt annað en ég var að reyna að segja og ég hef ekki hitt Wenger síðan.

Ég fer ekki leynt með það að ég hef miklar mætur á Wenger sem stjóra og ég átti gott samband við hann þegar ég var hjá Reading á sínum tíma. Ég hlakka mikið til að bjóða Wenger velkominn þegar hann kemur hingað með lið sitt og ég verð fyrsti maðurinn til að taka í höndina á honum um helgina," sagði Pardew.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×