Sport

Eins og nýtt lið

Steve Bruce og félagar sáu loks til sólar í kvöld, en Birmingham komst í fyrsta sinn af fallsvæðinu síðan í haust með fræknum sigri á Bolton
Steve Bruce og félagar sáu loks til sólar í kvöld, en Birmingham komst í fyrsta sinn af fallsvæðinu síðan í haust með fræknum sigri á Bolton NordicPhotos/GettyImages

Steve Bruce var að vonum kátur með sigur sinna manna á Bolton í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld, en 1-0 sigur liðsins lyfti því af fallsvæðinu í deildinni. Kollegi hans Sam Allardyce var þó skiljanlega ekki jafn hress með niðurstöðuna.

"Þetta var eins og nýtt lið þarna inni á vellinum," sagði Bruce og vísaði þar til 7-0 tapsins fyrir Liverpool í bikarnum á dögunum. "Ég verð bara að hrósa leikmönnunum, því þeir hafa girt sig í brók eftir martröðina fyrir tveimur vikum. Þetta verður vonandi til þess að veita okkur dálítið sjálfstraust á lokasprettinum því við munum þurfa á því að halda," sagði Bruce.

Sam Allardyce var ósáttur við að hans menn væru að klúðra hverjum leiknum á fætur öðrum í baráttunni um Meistaradeildarsætið. "Eitt glæsimark frá Jiri Jarosik var munurinn á liðunum í kvöld. Sætið í Meistaradeildinni er að verða fjarlægur draumur með þessu áframhaldi, því þetta var einn af þessum leikjum sem við áttum til góða til að koma okkur í góða stöðu í deildinni - en við köstuðum honum frá okkur," sagði Allardyce óhress.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×