Sport

Trúi ekki að Henry fari til Barcelona

Mikið er ritað og rætt um framtíð Thierry Henry þessa dagana
Mikið er ritað og rætt um framtíð Thierry Henry þessa dagana NordicPhotos/GettyImages
Arsene Wenger, stjóri Arsenal, segir afar ólíklegt að nokkuð sé til í blaðaskrifum á Spáni sem fullyrða að Thierry Henry hafi þegar samþykkt að ganga til liðs við spænsku meistarana Barcelona. Hann segir spænska og enska fjölmiðla einfaldlega skiptast á að ýkja og blása upp fregnir hvor frá öðrum.

"Ég hef enga trú á því að sé nokkurt sannleikskorn í fréttum spænsku blaðanna, því ég trúi ekki að Henry myndi gera svona nokkuð. Við skulum líka hafa það í huga að Henry er með samning við Arsenal til ársins 2007. Ég held að þetta sé aðeins uppspuni spænsku blaðanna og þau ensku lepja þetta allt upp og ýkja það svo sjálf.

Auðvitað stendur Henry frammi fyrir erfiðri ákvörðun og þarf að velja um að klára ferilinn með Arsenal eða prófa að breyta til og reyna að vinna titla annarsstaðar. Þegar allt kemur til alls er það þó það sem þú gerir í dag og á morgun sem skiptir mestu máli og ég er bjartsýnn á að hann verði áfram hjá okkur," sagði Wenger.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×