Erlent

Mestu flóð í Kína í 30 ár

Frá Fujian-héraði í Kína.
Frá Fujian-héraði í Kína. MYND/AP

Nærri hundrað hafa látist í miklum flóðum í Kína undanfarna tíu daga. Úrhellisrigning undanfarið hefur valdið mestu flóðum sem orðið hafa í landinu í heil þrjátíu ár.

Verst er ástandið í suðurhluta Kína, þar sem aftakaveður hefur gert undanfarið, bálhvasst og úrhellisrigning. Síðan rigningarnar byrjuðu í lok maí hafa níutíu og þrír látist og ellefu er saknað. Þá hafa tugþúsundir þurft að yfirgefa heimili sín í þeim héruðum þar sem ástandið er verst.

Auk manntjónsins er eignatjón mikið. Meira en sex hundruð tré hafa rifnað upp með rótum, þakplötur hafa fokið af húsum og brak og rusl fýkur út um allt. Þá hafa minnst sextán skemmtibátar farið á hvolf í óveðrinu og bílar fokið af vegum. Stjórnvöld hafa þegar heitið fimm milljónum Bandaríkjadala til uppbyggingarstarfs á svæðunum sem verst hafa orðið úti.

Mikil flóð eru árlegur viðburður í Kína, en flóðin nú eru miklu meiri en vanalega. Þar sem ástandið er verst eru flóðin meiri en undanfarna þrjá áratugi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×