Sport

Baptista verður magnaður

Tekur á móti fyrrum félaga sínum Jonathan Woodgate í fyrsta leik sínum á Englandi í dag.
Tekur á móti fyrrum félaga sínum Jonathan Woodgate í fyrsta leik sínum á Englandi í dag. Getty Images

Varnarmaðurinn Jonathan Woodgate, sem kom á láni til Middlesbrough frá Real Madrid rétt áður en félagsskiptaglugginn lokaðist fyrir skemmstu, spáir Julio Baptista hjá Arsenal glæstri framtíð í enska boltanum.

Woodgate og Baptista voru samherjar hjá Real Madrid á síðustu leiktíð en sem kunnugt er gengu þeir báðir til liðs við lið í ensku úrvalsdeildinni í lok síðasta mánaðar, Woodgate til Middlesbrough eins og áður sagði og þá fór Julio Baptista til Arsenal í skiptum fyrir Jose Antonio Reyes. Örlögin hafa síðan ráðið því að þeir félagar mætast í sínum fyrstu leikjum fyrir nýju félögin á Emirates-vellinum í London í dag. Woodgate hlakkar ekki til.

"Baptista og Thierry Henry eiga eftir að verða magnaðir saman. Það er mikil prófraun fyrir mig að takast á við þessa leikmenn í mínum fyrsta leik með Middlesbrough," segir Woodgate, en Baptista er gjarnan uppnefndur "Dýrið" og er þá verið að skírskota í mikla líkamsburði hans.

"Hans persónuleiki á ekkert skylt við dýr en sem leikmaður er hann einn sá líkamlega sterkasti sem fyrirfinnst. Hann er vaxinn eins og Mike Tyson en er samt fljótur og með góða tækni. Þannig stíll er eins og sniðinn fyrir ensku úrvalsdeildina," sagði Woodgate.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×