Sport

Pearce skrifar undir á næstu dögum

Stuart Pearce er ekki hrifinn af pappírum og hefur litlar áhyggjur af starfslokasamningum og uppsker litla gleði frá konu sinni fyrir vikið
Stuart Pearce er ekki hrifinn af pappírum og hefur litlar áhyggjur af starfslokasamningum og uppsker litla gleði frá konu sinni fyrir vikið NordicPhotos/GettyImages

Stuart Pearce, stjóri enska úrvalsdeildarliðsins Manchester City, mun að öllum líkindum skrifa undir framlengingu á samningi sínum við félagið á allra næstu dögum, en hann hefur verið samningslaus síðan hann tók við af Kevin Keegan fyrir um ári síðan.

"Ég hef nú bara ekki haft tíma til að lesa þennan samning ennþá, en vegna áreitis frá úrvalsdeildinni og fjölmiðlum er líklega betra að drífa þetta af - annars er ég ekki hrifinn af pappírum," sagði Pearce, sem er sannarlega maður af gamla skólanum og hefur engar klásúlur í samningi sínum um að fá rausnarlega summu frá félaginu verði honum sagt upp störfum í framtíðinni.

"Ég sagði stjórnarformanninum að ef hann ætlaði að reka mig, vildi ég ekki fá neina peninga frá honum, heldur óskaði ég þess að þeir notuðu peninginn frekar til að næsti stjóri gæti haldið áfram að gera gott fyrir félagið. Ég vil ekki fá greidd laun frá félagi þar sem ég er ekki við störf og ætla ekki að vera að rífast út af einhverjum krónum hér og þar. Ég hef uppskorið ágætlega á ferlinum sem leikmaður og knattspyrnustjóri og hefð það bara fínt - þó konan mín segi að vísu að ég sé asni," sagði Pearce.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×