Enski boltinn

Man. Utd. eykur forskotið í Englandi

Wayne Rooney sækir hér að leikmönnum Reading í leiknum á Old Trafford í dag.
Wayne Rooney sækir hér að leikmönnum Reading í leiknum á Old Trafford í dag. MYND/Getty

Manchester United vann 3-2 sigur á Reading í ensku úrvalsdeildinni í dag á meðan Chelsea tapaði stigum á heimavelli gegn Fulham. Forysta Man. Utd. á toppnum hefur því aukist enn frekar og er nú sex stig.

Það var hinn sjóðandi heiti Cristiano Ronaldo sem reyndist maður dagsins á Old Trafford. Ole Gunnar Solskjær hafði komið Man. Utd. á 33. mínútu en varnarmaðurinn Ibrahima Sonko jafnaði fyrir Reading fimm mínútum síðar. Ronaldo tók hins vegar til sinna ráða í síðari hálfleik og skoraði tvívegis, á 59. og 76. mínútu. Leroy Lita minnkaði síðan muninn á 91. mínútu en lengra komust gestirnir ekki.

Ronaldo fór útaf á 79. mínútu og var hylltur af stuðningsmönnum Man. Utd. Ronaldo hefur nú skorað 12 mörk í ensku deildinni. Ívar Ingimarsson og Brynjar Björn Gunnarsson léku allan leikinn fyrir Reading.

Varnarleikur Chelsea er í molum í fjarveru John Terry og í dag skoraði Fulham tvö mörk á Stamford Bridge, sem gerist ekki oft. Carlos Bonenegra tryggði gestunum jafntefli með því að skora þegar fimm mínútur voru eftir en áður hafði Didier Drogba komið Chelsea í 2-1. Fulham komst yfir í leiknum með marki Moritz Volz á 16. mínútu en Liam Rosinor skoraði sjálfsmark á 35. mínútu og jafnaði metin.

Manchester United er nú komið með 63 stig en Chelsea er með 57 stig.

Liðin í 3. og 5. sæti, Bolton og Portsmouth, mættust á heimavelli fyrrnefnda liðsins í dag og höfðu heimamenn betur, 3-2, í frábærum leik. Með tapinu féll Portsmouth niður í 6. sætið því Liverpool vann góðan útisigur á Tottenham þar sem Luis Garcia skoraði eina mark leiksins. Liverpol er í fimmta sæti, Arsenal í því fjórða og Bolton í þriðja.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×