Sport

Tottenham heimtar annan leik

Leikmenn og stuðningsmenn Tottenham telja sig illa svikna eftir atburðarás helgarinnar
Leikmenn og stuðningsmenn Tottenham telja sig illa svikna eftir atburðarás helgarinnar NordicPhotos/GettyImages

Forráðamenn Tottenham í ensku úrvalsdeildinni hafa nú ritað formanni deildarinnar bréf og farið þess á leit að leikur liðsins við West Ham í lokaumferð mótsins á sunnudag verði endurtekinn í kjölfar þess að flestir leikmenn Tottenham þjáðust af matareitrun daginn sem leikurinn fór fram. Tottenham tapaði leiknum og missti fyrir vikið af sæti í meistaradeildinni.

"Leikurinn á sunnudaginn var eins og bikarúrslitaleikur fyrir lið okkar og því var afar súrt að liðið hafi þurft að mæta til leiks undir þessum kringumstæðum," sagði Daniel Levy, stjórnarformaður Tottenham í bréfi sínu til forráðamanna úrvalsdeildarinnar.

"Við höfum fengið staðfestingu á því frá meirihluta liðanna í úrvalsdeildinni að þeim þyki réttast í stöðunni að fara fram á að leikurinn verði spilaður aftur, því öllum hefði þótt eðlilegast að leiknum hefði verið frestað vegna veikinda leikmanna. Því höfum við ákveðið að fara fram á að leikurinn við West Ham verði spilaður á ný," segir í bréfi Levy, en hann bætir við að þessi ótrúlega atburðarás í kring um lokaumferðina hafi farið illa í stuðningsmenn Tottenham, sem margir hverjir séu þess fullvissir að brögð hafi verið í tafli.

Talsmaður úrvalsdeildarinnar hefur þegar gefið út að úrslit leiksins á sunnudag muni standa, en segir að tekið verði tillit til bréfsins frá Levy og innihald þess rætt vandlega. Rannsókn á matvælum hótelsins þar sem leikmenn Tottenham snæddu kvöldið fyrir leikinn er enn í gangi, en rannsóknin miðast þó ekki við að um sakamál sé að ræða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×