Sport

Thierry Henry ætlar að vera áfram hjá Arsenal

Yfirlýsing Thierry Henry í kvöld er klárlega bestu fréttir sem stuðningsmenn Arsenal hafa fengið í ár.
Yfirlýsing Thierry Henry í kvöld er klárlega bestu fréttir sem stuðningsmenn Arsenal hafa fengið í ár. NordicPhotos/GettyImages

Franski knattspyrnusnillingurinn Thierry Henry hefur nú bundið enda á vangaveltur um framtíð hans hjá Arsenal, því í kvöld lýsti hann því yfir í viðtali við The Sun að hann ætlaði að vera áfram hjá félaginu í það minnsta út næsta keppnistímabil. Þetta eru mjög góðar fréttir fyrir stuðningsmenn Arsenal, sem óttuðust mjög að hann fetaði í fótspor Patrick Vieira og reyndi fyrir sér á meginlandinu.

"Staðreyndin er sú að ég elska þetta félag og hef nú ákveðið að vera áfram hjá Arsenal. Ég vil koma því áleiðis til aðdáenda félagsins og fólksins sem alltaf styður mig, að mig langar að vera hér áfram og fara með liðinu á nýja leikvanginn. Ég mun ræða við knattspyrnustjórann og stjórnina og við hljótum að ná að semja um framhaldið, því ég vil vera áfram," sagði Henry og bætti við að orðrómurinn um að hann hefði verið í viðræðum við Barcelona væri út í hött.

"Sannleikurinn er sá að ég hef aldrei rætt við einn eða neinn frá öðrum félögum og ég vona að þetta verði til að slökkva í kjaftasögunum," sagði hann, en neitaði ekki að það hefði verið freistandi að feta í fótspor landa síns Patrick Vieira. "Ég er nú bara 28 ára ennþá, en stuðningsmenn Arsenal áttu stóran þátt í ákvörðun minni. Þeir bauluðu ekki á mig eða snerust gegn mér þó allt þetta slúður væri í gangi og hafa alltaf komið ótrúlega vel fram við mig," sagði Henry.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×