Innlent

Viðgerðir á Þjóðleikhúsi næstar í röðinni

Regnbogi yfir Þjóðleikhúsinu.
Regnbogi yfir Þjóðleikhúsinu. MYND/Stefán
Það myndi kosta 1,6 milljarða króna að gera þær viðgerðir á Þjóðleikhúsinu sem þörf krefur, sagði menntamálaráðherra á Alþingi í dag og setti viðgerðir á Þjóðleikhúsinu efstar á forgangslista þegar kemur að menningarstofnunum.

Skemmdir á Þjóðleikhúsinu urðu þingmanninum Magnúsi Þór Hafsteinssyni tilefni til að spyrja menntamálaráðherra hvort ekki ætti að taka til við að koma húsinu í viðunandi horf.

"Ég tel að ástand Þjóðleikhússins sé okkur sem þjóð öllum til háborinnar skammar," sagði Magnús Þór og gagnrýndi að húsið hefði verið látið drabbast niður ár eftir ár.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra tók undir með þingmanninum að ástand Þjóðleikhússins væri ekki boðlegt. Hún sagði að viðgerðum á menningarstofnunum hefði verið forgangsraðað. Þjóðminjasafnið hefði verið gert upp og sömu sögu sé að segja af Þjóðmenningarhúsi. Nú sagði hún komið að því að ráðast í viðgerðir á Þjóðleikhúsinu og gera það sómasamlega.

Menntamálaráðherra sagði þó að mörgu að huga og rifjaði upp að Þjóðleikhússtjóri hefði komið fram með hugmynd að viðbyggingu við Þjóðleikhúsið. Slík bygging myndi kosta einn og hálfan milljarð og því væri ekki um neinar smá fjárhæðir að ræða. "Við erum búin að tryggja 250 milljónir króna," sagði menntamálaráðherra og sagði fjárlagavinnu í fullum gangi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×