Innlent

Hart deilt á utanríkisráðherra

Geir H. Haarde utanríkisráðherra.
Geir H. Haarde utanríkisráðherra.
Stjórnarandstæðingar deildu á utanríkisráðherra við upphaf þingfundar í dag fyrir að hafa ekki nægilegt samráð um gang mála í varnarviðræðum við Bandaríkin. Utanríkisráðherra sagði að það mætti ef til vill saka sig um margt en ekki þó það að hafa ekki nægilegt samráð við þingnefndir.

Össur Skarphéðinsson, fullltrúi Samfylkingarinnar í utanríkismálanefnd, hóf umræðuna. Hann gagnrýndi að stjórnvöld hefðu ekki upplýst utanríkismálanefnd um hvað kom fram á fundi erindreka Íslands og Bandaríkjanna um varnarmál síðasta föstudag. Hann sagði að ef til vill væri tregða ráðamanna til að upplýsa utanríkismálanefnd um stöðu mála til kominn vegna þess að skiptar skoðanir væru hjá forsætisráðherra og utanríkisráðherra á stöðunni og hvað skildi gera.

Jón Gunnarsson flokksbróðir hans tók undir gagnrýnina og velti fyrir sér hver ætti að kveða upp úr um hvenær utanríkisráðherra skyldi hafa samráð við utanríkismálanefnd. Hann sagði að formaður utanríkismálanefndar virtist helst líta á það sem sitt hlutverk að bíða eftir að utanríkisráðherra teldi sig þurfa að segja nefndinni eitthvað. Utanríkisráðherra biði svo eftir því að eitthvað kæmi fram hjá Bandaríkjamönnum og embættismenn Bandaríkjastjórnar kæmu ekki fram með margt. Á meðan gerðist svo ekkert.

Utanríkisráðherra andmælti því að hann hefði ekki haft nægilegt samráð við utanríkismálanefnd. Hann sagði að það mætti ef til vill saka sig um eitt og annað á sínum ráðherraferli, en það að saka hann um ófullnægjandi samráð við þingnefndir næði ekki nokkurri átt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×