Erlent

Bandaríkjamenn heimta refsiaðgerðir

Bandaríkjamenn segjast fullvissir um að sátt náist í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna um að beita Írana refsiaðgerðum. Fulltrúar sex af voldugustu ríkjum heims ræddu stöðuna í kjarnorkudeilunni í París í dag.

Íranar hafa fram að þessu að engu haft áskoranir öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um að láta af auðgun úrans heldur hafa þeir þvert á móti hraðað vinnslunni eins og fram kom í skýrslu Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar fyrir helgi. Öryggisráðið á eftir að ákveða til hvaða ráða á að grípa gegn klerkastjórninni í Teheran og því hittust fulltrúar ríkjanna fimm sem eiga þar fast sæti, auk Þýskalands, í París í dag og skeggræddu þá kosti sem eru í stöðunni.

Ályktun á grundvelli sjöunda kafla stofnsáttmála SÞ er bindandi og út frá slíkri ályktun er hægt að grípa til efnahagsþvingana og jafnvel samþykkja beitingu hervalds. Rússar og Kínverjar hafa hins vegar verið því andvígir hingað til að beita Írana refsiaðgerðum. Því er ólíklegt að ályktun þess efnis verði borin upp í ráðinu sé hætta á að þeir beiti neitunarvaldi til að koma í veg fyrir að hún nái fram að ganga. Burns ítrekaði því að diplómatískra lausna yrði áfram leitað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×